154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:43]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég óska Vinstri grænum góðs gengis við að hækka veiðigjöld. Eins og ég sagði áðan þá hefur auðlindarentan í sjávarútvegi verið metin um 45–50 milljarðar að umfangi og eðlilegt að drjúgur hluti hennar skili sér til ríkisins. Ég held að Samfylkingin muni ekki fara þá leið Vinstri grænna að mæta einhvern veginn inn í ráðuneyti og vita ekkert hvað þau ætla að gera og þurfa einhvern veginn að vera með heilu starfshópana til að finna út úr því heilu og hálfu kjörtímabilin Þessi ríkisstjórn er búin að sitja hérna í hvað, það eru að verða komin sex ár, þannig að það er löngu tímabært að ná árangri hér.

Varðandi heilbrigðismálin þá er auðvitað það sem ég var að gagnrýna í minni ræðu ummæli bæði hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra um að það sé verið að verja framlínuna, að aðhaldið sé ekki að koma niður á heilbrigðiskerfinu og menntamálunum. Það er gefin sú mynd að það sé bara verið að skera niður einhvern lúxus efst í kerfinu. En þegar nánar er að gáð þá er verið að ná fram mesta sparnaðinum, mesta rekstraraðhaldinu, í heilbrigðismálum og menntamálum. Jú, það er m.a. til að skapa rými fyrir aukin verkefni. En það þýðir samt líka að það er verið að fresta ákveðnum framkvæmdum við legudeild o.s.frv., t.d. á Akureyri. Það þýðir að það er harðari aðhaldskrafa á ákveðnar stofnanir sem mun gera þeim erfiðara um vik að sinna fólki. Það þýðir ekki að það sé ekki almennt verið að auka fjármuni til heilbrigðismála, guð minn almáttugur og þó það nú væri. En engu að síður er verið að kroppa hér og þar í almannaþjónustuna og ég óttast að þessar aðgerðir muni bíta svolítið í skottið á sér.